8.2.2009 | 23:26
Davíð Oddsson
Davíð Oddsson, starfandi Seðlabankastjóri, hefur legið undir ámæli um að hans tími í brúnni sé liðinn.
Margir telja Davíð guðföður þess kapítalisma sem viðgengist hefur á Íslandi síðan 1991 þegar Davíð Oddsson hóf farsælan feril sinn sem forsætisráðherra þjóðarinnar um leið og hann gerðist formaður flokks síns. Hann var óskoraður foringi Sjálfstæðismanna allan þann tíma sem hann var við völd í flokknum og sem slíkur og sem forsætisráðherra landsins ber hann ótvíræða ábyrgð á þeirri stefnu sem tekin var á þessum árum og fylgt til dagsins í dag.
Þegar stjórnmálaferli hans lauk tók hann til við að stjórna Seðlabanka Íslands, þangað var hann ráðinn af samflokksmönnum sínum sem sérfræðingur á sínu sviði. Vissulega hefur réttilega verið deilt á sérfræðikunnáttu þessa mæta manns enda lögfræðimenntaður en sérfræðingur var hann. Hann er og var sérfræðingur í að framfylgja þeirri stefnu sem mótuð hafði verið af honum. Hann vissi vel hvað hann vildi, hann kunni að stýra þjóðarskútunni þangað sem hann ætlaði.
Stefna þessi var röng. Efnahagur Íslensku þjóðarinnar er hruninn, kaupmáttur hefur rýrnað stórkostlega, gengisvísitalan komin upp úr þakinu, skuldastaðan stefnir í að verða ógnvekjandi, álit umheimsins er ýmist meðaumkun eða hatur og svo mætti lengi telja. Allt vegna rangrar peningastefnu sem var mótuð og seinna framfylgt af Davíð Oddssyni fyrrum forsætisráðherra og síðar Seðlabankastjóra.
Það hefur sýnt sig að þrátt fyrir skipbrot stefnunnar situr bankastjórinn við sinn keip, fylgir sömu stefnu þrátt fyrir viðvaranir frá sérfræðingum innanlands og utan úr heimi. Davíð virðist enn hafa ofurtrú á peningastefnu sinni og ætlar að leita allra bragða til að halda henni við líði. Hann vill halda krónunni, vill standa utan ESB en til hvers? Líklega til þess að geta haldið sinni stefnu óáreittur.
Það er undarlegt að einn maður sem hefur farið fyrir heilli þjóð skuli ekki virða þjóðina meir en svo að kröfur séu virtar að vettugi. Það er undarlegt að hann skuli leggja í pólitískan sankassaleik til þess eins að sýna pólitískum andstæðingum birginn. Það er fyrst og fremst sorglegt að Davíð Oddsson skuli ekki nota tækifærið og fara frá þegar þess er óskað. Fyrir vikið verða átökin einfaldlega grimm og afleiðingarnar allt eins slæmar fyrir hann og þjóðina í heild.
En best að vona það besta, okkur í hag.
Lýsir miklum vonbrigðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:27 | Facebook
Athugasemdir
Flottur og góður pistill
Kristján Logason, 9.2.2009 kl. 00:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.