Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Hverjum að kenna?

Í framhaldi af síðustu skrifum mínum hef ég verið að hugsa um sökudólga. Hver olli kreppunni sem nú hrjáir okkur svo illa?

Þjóðin er í sárum, réttlætið virðist svo víðsfjarri.

Peningastefnan sem tekin var undir stjórn Sjálfstæðisflokksins er sú stefna sem endaði í hörðu strandi. Hvergi var gefið eftir, stefnan var skýr og byrinn góður. Karlinn, eða karlarnir, í brúnni horfðu á landið nálgast.

Það lætur nærri að kenna Sjálfstæðismönnum um skipbrotið. Framsóknarmenn eru jú saklausir enda voru þeir löngu búnir að fatta að þetta væri á leið til andskotans, eða það segja þeir. En Sjálfstæðisflokkurinn starfaði eftir þessari kapítalísku hugsum sinni, þetta var sú stefna sem þeir höfðu trú á og með hana að leiðarljósi fengu þeir umboð til að leiða þjóðina í fjölmörg ár. Þetta lá allt fyrir, aðvaranir hagfræðinga ómuðu, aðvaranir stjórnarandstæðinga þögnuðu sjaldan og umheimurinn fáraðist á stundum yfir siðspillingu útrásarvíkinganna sem gengu um rænandi og ruplandi.

Með Sjálfstæðisflokkinn í stafni sigldi þjóðarskútan í strand. Við, þegnar landsins, gættum þess að haga seglum eftir vind og þó að margir hafi hvíslað í hornum þá hafði það lítið að segja, við erum strand. Að kenna einum flokki um fremur en einhverjum öðrum tel ég óábyrgt vegna þess að svona hefur heimurinn þróast. Vissulega fór allt í kaldakol, stefnan var röng en fólk studdi við stefnuna allt fram í rauðan dauðann. Nú skulum við sópa upp spónunum og komast á flot og ef til vill taka aðra stefnu. Það hefur oft reynst vel að sigla í hóp, ef þið vitið hvað ég meina.


Óábyrgt hjal frá útlöndum.

Ég veit að ég er allskostar utan gátta í krepputali. Ég hef ekki fundið fyrir þeirri angist sem því fylgir að hírast undir súð á myrkum vetrarkvöldum og hlusta á ráðamenn þjóðarinnar lýsa því í beinni útsendingu hvernig sjálfstæði Íslensku þjóðarinnar sé að fjara út. Ég veit ekki hvernig það er að missa vinnuna. Ég veit ekki hvernig það er að vera Íslendingur í dag.

Ég fylgist samt með, ég hlusta og les. Nornaveiðarnar eru í fullum gangi, Sigmar í Kastljósinu segir að þetta sé Geir að kenna, Geir segir að þetta sé bara misskilningur, Steingrímur J segir að þetta sé Davíð að kenna og gott ef að Davíð sé ekki sammála Agli Helga um að þetta sé Jóni Ásgeiri að kenna. En hverjum er þetta að kenna? Er þetta ekki þeim öllum að kenna? Er þetta ekki okkur öllum að kenna? Ég er með neyslulán, ég er með himinháan yfirdrátt, ég á ekki neitt en skulda. Stór hluti þjóðarinnar hefur steypt sér í skuldir til þess eins að versla, léttgreiðslur, boðgreiðslur og allskonar aðrar greiðslur hafa verið í tísku og öllum hefur fundist það allt í lagi, maður borgar bara seinna.

Það eru einmitt þessi neyslulán bankana sem hafa gjaldfallið. Allir héldu að heimurinn væri þeirra og að ekkert gæti mögulega komið í veg fyrir heimsyfirráð Íslands, því það er alltaf hægt að borga seinna. Augljóslega missást eitthvað í öllu þessu sjónarspili. Það er ekki alltaf hægt að borga seinna, einn daginn þarf að borga hvort sem manni líkar betur eða ver. Ég þarf að borga AGS (Alþjóða gjaldeyrissjóðnum) yfirdráttinn minn, allir verða að gera sitt upp. Allir eiga að gera sitt upp, það er ekkert réttlæti í öðru.

Við höfum það gott þrátt fyrir að eiga ekki fyrir nema Kavli kavíar. Það er enn fólk í heiminum sem hefur það mikið verr en við þó að það búi ekki við neina eiginlega kreppu. Við höfðum það mikið verr fyrir 60 – 70 árum en samt tórðum við. Við erum í þokkalegum málum og enn betri holdum, ættum að eiga eitthvað til mögru árana. Fólkið í heiminum ætlar að lána okkur pening svo við getum reddað þessu, við kannski borgum upp okkar skuldir og stígum svo varlega til jarðar í framtíðinni, kannski lærum við.

Davíð Oddsson, Geir Haarde og ég erum reynslunni ríkari, við höfum öll lært. Að benda á einhvern og öskra „þetta er þér að kenna“ vindur ekkert upp á sig.

Sjálfstæðisflokkurinn ætti að mínu viti að stórtapa næstu kosningum, en af hverju? Jú, vegna þess að þeir gáfu okkur hamingjuna en tóku hana svo af okkur aftur. Þetta er eins og að fá lánaða leikfangakringlu og rétta hana smábarni. Þegar það þarf að skila henni aftur grætur barnið. Sjálfstæðisflokkurinn fékk lánaða kringlu sem við fengum að leika okkur með óáreitt í mörg ár. Við skemmtum okkur vel, allan tímann. Við sigruðum næstum því heiminn. En svo var kringlan tekin og nú grátum við sáran, lífið er ósanngjarnt. Sjálfstæðisflokkurinn er vondur pabbi.

Ég ætla ekki að kjósa Sjálfstæðisflokkinn næst og ég trúi því ekki enn að ég muni með aldrinum breyta þeirri skoðun minni en kæru Sjálfstæðismenn, oft var þörf en nú er nauðsin. Flokkurinn ykkar þarf á ykkur að halda. Ekki snúa baki við þeim sem fæddu ykkur og klæddu!!

Mikið er ég samt ánægður með Björgvin G. Sigurðsson. Alveg frá því ég sá hann í Örlagadeginum hef ég beðið þess að sjá hann blómstra og það gerir hann nú. Eða var það Sjálfstætt fólk? Drykkfeldur ungur maður gerist bóndi í Flóanum rétt í þann veginn sem hann verður ráðherra. Góð saga maður.


mbl.is Baksvið: Viðvörunarljósin leiftruðu í þrjú ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Davíð Örvar Hansson
Davíð Örvar Hansson
Happiness depends upon ourselves.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband